miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Addi Palli og Bergþóra.

föstudagur, ágúst 29, 2003

Hef brotist undan k?gun hins illa bloggers og gengi? ? ?j?nustu hins ekki svo illa livejournals.com

?annig a? n? m? lesa m?n aumu skrif ? hér.

mánudagur, júní 30, 2003

Lentur.

þriðjudagur, júní 24, 2003


Ég hafði ekki getað opnað bloggið hans Svans í marga daga fyrr en í dag. Því miður er þar ekkert nýtt. Ég las þó yfir efstu færsluna aftur og komst að þeirri niðurstöðu að ef bókalestur væri keppnisgrein þá væri Svanur maðurinn í að stjórna sjónvarpslýsingunum.


Las á bloggieinu smáfrásögn af skrifræði á skattinum á Íslandi. Hafði bloggari lent í því að rita heimilisfang sitt og nafn að því er virtist óþörfu á umsóknareyðublað. Mikið æðislegt væri ef lífið væri ekki flóknara en það. Til þess að ég geti fengið leyfi til þess að fara út úr Rússlandi þarf ég að sækja um útfararvegabréfsáritun. Til þess fer maður á ákveðna skrifstofu sem opin er frá 3 til 5 alla virka daga nema miðvikudaga (þess má geta að kennsla hjá mér er alltaf á þessum tíma). Þar bíðurðu í röð og færð umsóknareyðublað. Að því útfylltu fékk ég í þessu tilviki 3 gíróseðla til greiðslu og hvern þeirra þurfti að fylla út í tvíriti (það þýðir ekki að þú skrifar á blað og það fer átómatískt á annað blað, allt skal skrifað tvisvar). Síðan fer maður í banka, sem er í þessu tilviki staddur í um 50 metra fjarlægð frá skrifstofunni þeirri arna en er þó í um 10 mínútna fjarðlægð því að háskólasvæðinu er skipt upp svæði út af hryðjuverkaógninni. Þar þarf venjulega að bíða í meðallangri röð. Að gíróseðlunum greiddum heldur maður aftur til baka og bíður aftur eftir því að komast að. Þá fær maður lítið blað í staðinn fyrir vegabréfið og bíður sallarólegur þar til er vegabréfið er afhent til baka.
Þann dag er nefndur var mætir maður einfaldlega og nær í vegabréfið... eða ekki ef það er ekki tilbúið, þá getur maður drullast til þess að koma þarna daginn eftir. Eða að maður bíður í 3 tíma á skrifstofunni til að fá það eins og í mínu tilviki. Þá er eins gott að vera ekki að fara úr landi eftir nákvæmlega 3 og hálfan tíma eins og var raunin hjá einum. Þess má svo geta, að fyrir þetta leyfi til þess að fara ÚR landi, borgaði ég rúmlega 5000 krónur. Það var reyndar svona dýrt af því ég sótti bara um með vikufyrirvara, en það er samt eitthvað fáránlegt við að standa í þessu veseni til þess eins að fá leyfi til að komast úr landi.
Annars eyddi ég öllum deginum í dag í alls kyns biðröðum og raunar gærdeginum líka. Geri ráð fyrir að fara í nokkrar biðraðir á morgun líka en þá verður þetta að öllum líkindum búið. Enda eins gott því ég er að fara úr landi á sunnudaginn. Eitthvað sorglegt við það að eyða síðustu dögunum öllum inná einhverjum skrifstofum. Það er þó bót í máli að stórskáldið Aleksander Blok fæddist í húsinu sem ég beið í í dag.

mánudagur, júní 23, 2003


Bloggið komst allt í einu í lag. Þýðir að ritúölin sem ég hef verið að stunda síðustu daga hafa virkað. Þau voru nú samt eiginlega til einskis af því að ég nenni ekki að blogga neitt.

miðvikudagur, maí 28, 2003

Í Blogginu hinu eina er þetta helst:

Próftökur
Fyrir viku síðan fór ég og skráði mig með pompi og prakt í svona TORFL próf sem fram átti að fara í dag og á morgun. Þar sem hátíðarhöld mikil eru í gangi í borginni með meðfylgjandi veseni ákvað ég nú að spurja hvort það væri alveg öruggt að þessi próf yrðu í dag, því loka ætti flestum öðrum stofnunum í þessari borg þessa daga. Voru ég og fleiri fullvissaðir um það. Síðan mætum við ein 15 á svæðið í morgun og er tilkynnt af húsverði að enginn sé í bygginguni og enginn verði þar fyrr en eftir helgi. Leyniþjónustan hafði víst mætt á svæðið og skipað þeim að loka. Prófþjónustan var þó ekki að hafa fyrir því svo mikið sem að hengja upp tilkynningu á hurðina. Helvíti gott því ég þarf eiginlega að standast þetta próf sem fyrst en var hins vegar búinn að lofa mig í tveggja vikna ferðalag sem hefst á morgun. Ég neyðist þvi til að fresta þessu prófi til 18. og 19. júní.
Ef ég hefði hins vegar vitað að ég gæti ekki tekið prófið í dag hefði ég verið lagður af stað í þetta ferðalag þegar og komið fyrr til baka. En það má reyndar vera að einn jákvæður punktur sé í þessum misskilingi. Hann er hér með gerður að leyndardómi dagsins með tilheyrandi trommum og lúðrablástrum.

Hátíðarhöld
Þá er líka grátbroslegt að hafa verið upptekin öll hátíðarhöldin við að læra undir próf sem var svo frestað einmitt vegna þessara hátíðarhalda. Ekki að ég sjái mikið eftir því. Helstu atburðirnir voru einhverskonar Karnival-skrúðganga á sunnudaginn. Reyndar hef ég aldrei séð slíkt fyrirbæri nema í sjónvarpi en tel þó skemmtanagildið lítið. Í gærkvöldi var svo flugeldasýning og japanskt leysigeislasjó. Nóg hef ég séð af flugeldasýningum um ævina og leysigeislasjóið var víst ömurlegt. Þá hafa víst verið einhverjir tónleikar á Hallartorginu við Vetrarhöllina, sá aðeins af því í sjónvarpinu. Þeir sem komu fram voru allir þessir miðaldra hjartaknúsarar sem annaðhvort eru sköllóttir og með mottu eða sítt-að-aftan og með mottu. Tónlistin er svo eftir því. Það tók ár að komast inn í rússneskt rokk. Ef ég gerist afgreiðslumaður í búð-á-horninu í Perm og vinn þar í 45 ár er möguleiki að einn daginn fari ég að fíla þessa tónlist.

Evrovedenie
Tyrkneska lagið var ágætt... þjóðlega tyrkneska tónlist með poppívafi er hægt að gúddera en að viðbættum Britney Spears texta, það er dáldið annað mál. Mér skilst að Íslendingar hafi gefið Austurríkismönnum 12 stig? Mér fannst það lag eiginlega hvorki sniðugt né fyndið. Mínar menn, Tatúshkurnar, áttu náttúrlega að rústa þessu, en það er víst ekki á allt kosið. Að hugsa sér að Alsú hafi orðið ofar en þær á sínum tíma.

Matritsa – Peregrúzka
The Matrix – Reloaded er ekki lítið vond mynd. Hvað er það sem er að heilla fólk svona mikið? Langdregin bardagaatriði sem eru annað hvort svo hröð að þau virðast vera úr tölvuleik og engin leið er að sjá hvað er í gangi, eða svo hæg (í tilfelli Samuels L. Jackson) að meiri tilþrif sæust í uppfærslu elliheimilisins Grund á Örlygastaðabardaga? Eða atriðið þar sem hellaþjóðin er að dansa og fagna heimkomu Morfeusar? Allt vel vaxið fólk í blautum gegnsæjum bolum að dansa við einhverja reif tónlist, svo á þetta að vera einhver þjóðarsamkoma.
En já, þá er ég búinn að gera skyldu mína sem bloggari og kommenta á Matrix og Júróvisjón. Ja, maður ætti kannski að minnast á símamálið.

...boltinn kemur alltaf niður aftur
Og eins virðist vera að reynast um Skjá 1. Þetta sem enginn skildi hefur loksins verið skýrt. Ekki áttu getgátur á við að bandaríska fjölmiðlaáróðursráðuneytið nýja væri að stunda tilraunastarfsemi á Íslandi við rök að styðjast. Nei, sannleikurinn reyndist ennþá meira kræsandi. Peningunum stolið úr einu ríkasta og óvinsælasta fyrirtæki landsins til þess að halda uppi skemmtidagskrá fyrir þjóðina. Dr. Gunni lýsir þeim á bloggi sínu sem hálfgerðum ígildum Hróa Hattar. Kannski eitthvað til í því en verst hvað Skjár 1 var vond sjónvarpstöð. Ekki á ég eftir að sjá eftir því ef hún hverfur eða breytir um stíl. Ég fyrirgaf þeim nefninlega aldrei fyrir að hafa dömpað Conani. En annars hefur Dr. Gunni líklega hárrétt fyrir sér þegar hann nefnir að þessir peningar hefðu líklega ekki farið í neitt betra. Alltént ekki miðað við fyrri reynslu. Ég meina, þúst, þeir hefðu getað þurft að borga skatta af þessu.
Annars legg ég til að þessi reynsla verði færð þjóðinni í nyt og hér með gert að kröfu í starfslýsingu útvarpsstjóra RÚV að hann hafi ættartengsl við bókhaldara í efnuðum fyrirtækjum. Það myndi líklega heldur ekki vera svo slæmt ef Heimspekingurinn mikli í HÍ færi að sækja bókhaldsnámskeið. En já, nóg af bulli.

Landafræðikunnátta
Fengum í dag í pósti hollenskt tímarit að nafni Ode. Þetta er eitthvað nýtt óháð tímarit sem ætlar að segja okkur sannleikann um ástandið í heiminum í dag. Til að mynda hent gaman að því að bara 13% Bandaríkjamanna geta bent á Írak á korti samkvæmt einhverri könnun.
Þeir hafa fengið heimilisfangið okkar í gegnum vinkonu vora í Hollandi en ekki tókst þeim vel til að lesa úr því. Heimilisfang okkar er Ulitsa Majakovskogo 48-24, St Petersburg, Russia en á umslaginu stóð Yinua Makobckobo 48-24, St Petersburg, ROMANIA. Greinilegt að fleiri eru á villigötum í landafræðinni.

Bless í bili
Bloggið hið eina var svona langt í þetta skiptið því skrifari þess, hinn eini sanni Ég er að fara í tveggja vikna ferðalag. Ferðinni er fyrst heitið til Nizhny Novgorod sem áður hét Gorky. Þaðan verður haldið eftir Volgu austur til Kazan í Tatarstan, svo áfram eftir sömu á suður til Volgograd með hugsanlegri viðkomu í Samara. Lokaleiðangurinn verður svo til Astrakhan við Kaspíahaf. Ferðamátar verða lestir, rútur og hugsanlega bátar. Ef ég lifi þetta af, þá ætti blogg að hefjast á nýju í kringum 16. júní. Ef ekki, þá óska ég öllum gleðilegs 17. júnís.

miðvikudagur, maí 21, 2003

Prazdniki
Nú er minna en vika í það sem menn hafa verið að eipa yfir í Pétri síðustu árin, það er 300 ára afmæli borgarinnar. Á það hef ég minnst nokkrum sinnum því borgin hefur að mestu verið þakin stillösum frá því í haust. Ekki sá maður miklar framfarir hjá þeim enda oft lítið um að vera í kringum byggingarnar þrátt fyrir að þær væru í viðgerð. Fyrir um 3 vikum eða svo vöknuðu menn upp við vondan draum þar sem tæpt var að það tækist að klára þetta. Þá var rússneska mulningavélin sett í gang og svo virðist sem þeim sé að takast það ómögulega. Flestar helstu byggingar eru að komast í samt lag. Við Vetrarhöllina var stóru moldarflagi breytt í skrautgarð á nokkrum klukkutímum og þar fram eftir götunum. Svo eru aðrir staðir sem ólíklegt er að náist að klára en þeir eru flestir ekki við aðalgötuna þannig að það er svo sem í lagi frá sjónarhorni ferðamannafrömuða og stjórnmálamanna. Hingað á nefninlega að bjóða nokkrum tylftum þjóðhöfðingja og að rússneskri venju verða sett upp mikil Potemkin tjöld til að heilla þá.
Annars skynja flestir almennir borgarar þetta sem einhverskonar komandi kaos. Það er vitað að allar almenningssamgöngur nema metróið munu ekki ganga í miðborginni. Tveimur brúm verður lokað fyrir umferð en enginn veit fyrir víst hvaða brúm. Lögreglumenn verða væntanlega á hverju strái að inna fólk eftir skilríkjum. Mörgum götum verður alveg lokað og þar fram eftir götunum. Þó virðist einhvernveginn enginn vita hvað verður í gangi þessa daga, hvar hátíðarhöld verða og í hverju þau verða fólgin.
En já, til að gera langa sögu stutta þá held ég að ég sitji heima.

Fílólógíska deild háskólans er til húsa í gamalli höll sem byggð var fyrir Pétur II en hann bjó víst reyndar aldrei þar. Höllin er falleg en dáldið hrörleg að utan. Það virðist því hafa verið ákveðið að gera við hana og fyrir nokkrum vikum mættu á svæðið verkamenn og huldu annan væng hallarinnar stillösum. Síðan var spúlað og skrapað og höggvið í um tvær vikur en þá stillasarnir teknir niður og verkamennirnir höfðu sig á brott. Árangurinn var að af þessum væng var klæðningin rifinn af þannig að sást í bera múrsteinana. Þegar ég kom svo í skólann á mánudaginn var búið að leysa málið þannig að hengt hafði verið stórt tjald, með fasadinu ámáluðu, á þennan vegg. Maður getur svo verið með getgátur um það af hverju þetta var gert, væntanlega hafa peningar horfið og því viðgerðum hætt.

Þá er það nýjasta af frétta af þessum hátíðarhöldum að heilbrigðisyfirvöld borgarinnar telja það algerlega ómögulegt að tryggja að með einhverjum af þessum fjölda gesta sem munu koma til borgarinnar berist ekki ódæmigerð lungnabólga. Það er reyndar kannski best að vera ekki að tapa sér í einhverri móðurskýki.

mánudagur, maí 19, 2003

Á mánudögum er sérstaklega erfiður dagur. Skóli frá 10 til 5 og auk þess var ég að sinna málum á ýmsum skrifstofum þar fram eftir götunum (námsskráningin í HÍ er barnaleikur að díla við miðað við kerfið hérna). Síðan fór ég í töluvert langa metróverð til að ná í hlut úr viðgerð. Það eina sem hélt mér gangandi var það að það átti að bíða mín góður matur þegar ég kæmi heim. En neeeeei, Þjóðverjarnir voru búnir að éta allt nema þurrkaða fiskinn. En svona er lífið. Eða eins og einhver sagði: helvítis Þjóðverjarnir.

Annars sýnist mér sem ég verði nokkuð upptekinn næstu vikur. Ég á í miklum vandræðum með að klára að gera allt sem þarf að gera á þessum rúma mánuði sem eftir er af þessum vetri. Þannig að ekki skal búast við of miklu bloggi á næstunni.

fimmtudagur, maí 15, 2003

Annar dagurinn í röð án heits vatns. Nú skil ég af hverju það er svona gashitunarelement á baðherbergjum í svo mörgum íbúðum. Ef áfram heldur sem horfir þarf ég að fara að stunda þessi alræmdu rússnesku baðhús. Sem er reyndar allgaman. Berja sig með trjágreinum í brennandi heitu gufubaði.

mánudagur, maí 12, 2003

Fyrst var það Efnavopna-Ali, nú Doktor Sýkill. Hvað kemur svo....?